Gjöld í heilbrigðiskerfinu í engu samhengi við kostnað

Eftir Hlyn Orra Stefánsson - hlynur@bladid.net
Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er ekki í neinu samræmi við kostnað við þjónustuna sem veitt er og fólki er mismunað eftir því hvaða sjúkdóm það er með og hvers konar meðferð það þarf. Skýrasta dæmið um þetta er að sjúklingur, sem er lagður inn á sjúkrahús yfir nótt vegna aðgerðar greiðir ekkert fyrir þjónustuna, en sjúklingur sem fer strax heim eftir sams konar aðgerð getur fengið sendan reikning eftir á.

Í úttekt Blaðsins í dag er m.a. sagt frá tveimur vinkonum, sem þurftu að fara í legskröpunaraðgerð á kvennadeild LSH á sama tíma. Hjá annarri gekk aðgerðin vel og hún fór heim samdægurs. Hin þurfti að dvelja á spítalanum yfir nótt. Hún fór heim daginn eftir án þess að greiða krónu, en sú sem fór heim samdægurs fékk nokkrum dögum síðar sendan reikning frá sjúkrahúsinu. Fram að því að hún opnaði umslagið hafði enginn starfsmaður heilbrigðiskerfisins gert henni grein fyrir því að rukkað yrði fyrir aðgerðina.

Sigrún Guðjónsdóttir, deildarstjóri innheimtudeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss, staðfestir að tilfelli sem þessi geti komið upp. „Það er engin reglugerð sem segir að innheimta megi fyrir aðgerðir ef sjúklingur er lagður inn. Ef hann dvelur skemur en 24 klukkustundir á sjúkrahúsi gildir hins vegar annað og sjúklingur getur fengið sendan reikning heim."

Sigurður Böðvarsson, krabbameinslæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir að hvergi sé skilgreint fyrir hvaða sjúkratryggingar fólk greiði með sköttunum sínum, og þar með hvaða þjónustu fólk eigi rétt á. „Auðvitað eigum við að geta seð það, svart á hvítu, fyrir hverju við erum tryggð. Þannig geta heilbrigðisyfirvöld ekki breytt því einn daginn hvað þau greiða fyrir," segir Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert