Eftir var að veiða um 420 hreindýr af úthlutuðum veiðikvóta þessa árs, samkvæmt tölum frá síðasta föstudegi. Jóhann G. Guttormsson, starfsmaður Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum, sagði þá að alls væri búið að veiða 710 dýr á þessu veiðitímabili. Þar af um 390 tarfa og um 320 kýr. Þá var eftir að veiða rúmlega 250 kýr og um 170 tarfa.
Jóhann taldi að veiðimenn hefðu þurft að nýta betur góða daga til veiða í ágúst, í stað þess að sitja þá af sér. Alls er heimilt að veiða 1137 hreindýr í ár. Veiðitímabilinu lýkur 15. september nk. Nokkru hefur verið skilað af seldum veiðileyfum, aðallega á svæði 2 enda langflest leyfi útgefin þar. Jóhann sagði að til þessa hefði gengið vel að selja leyfi sem hefði verið skilað. Jóhann taldi aðeins um að kenna skipulagi veiðimannanna sjálfra.
Borið hefur á góma að erfitt sé að fá leiðsögumenn til að fara með veiðimönnum og það hafi tafið einhverja frá veiðum. Jóhann kvaðst hafa heyrt þann orðróm. „Ég veit ekki hvað er til í því en það er ekki gott þegar veiðimenn eru að uppgötva það núna að þeir þurfa leiðsögumann. Ég hef heyrt að menn séu að hringja núna og kanna með leiðsögumenn undir lok veiðitímans.“