Fjölnota knatthús við Vallakór í Kópavogi verður opnað formlega í dag klukkan 14. Húsið er með stærstu mannvirkjum sinnar tegundar hér á landi og uppfyllir staðla alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA. Við opnunina í dag verður m.a. greint frá niðurstöðu samkeppni um nafn á húsið.
Kópavogsbær segir, að með byggingu hússins sé hafin uppbygging heilsu-, íþrótta- og fræðaseturs í Kópavogi í samræmi við samning Kópavogsbæjar og Knattspyrnu Akademíu Íslands. Um sé að ræða fyrsta áfangann að miklum framkvæmdum í þágu fræðslu og íþrótta á svæðinu. Seinni áfangar fela í sér íþróttasal með búningsklefum, skólahús, sundlaug og knattspyrnuvelli utanhúss.