Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að tilraun með sérstakt öryggishlið fyrir farþega á Saga-class í gegnum vopnaleit á Keflavíkurflugvelli muni hafa leitt í ljós, að það sé ónauðsynlegt. Björn útskýrir þetta ekki nánar. Talsverðar umræður urðu um þetta öryggishlið í sumar og lýsti Björn þá m.a. þeirri skoðun sinni, að sérreglur fyrir útvalda leiði frekar til mistaka en alúð við almennar reglur, sem gildi fyrir alla.
Björn heimsótti í vikunni embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og fór í starfsstöðvar lögreglunnar og tollgæslunnar í Keflavík, á Keflavíkurflugvelli og í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Í tilkynningu sem dómsmálaráðuneytið sendi frá sér í kjölfarið segir m.a., að flugvallarstarfsemin sé í örum vexti og nú sé að verða til nýr byggðakjarni ungs fólks í húsakynnum á gamla varnarsvæðinu. Hin almenna löggæsla á Suðurnesjum verði að taka mið af fjölgun íbúa þar og aá aukist kröfur um landamæravörslu og öryggisgæslu í réttu hlutfalli við fjölgun farþega í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Segir Björn að starfsstöðvar embættis lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli séu dreifðar og að hluta til í gámum til bráðabirgða. Þetta sé að sjálfsögðu ekki viðunandi og brýnt að huga að nýjum húsakosti fyrir embættið í samráði við fjármálaráðuneytið, þar sem fyrir utan starfsemi þess verði gert ráð fyrir aðstöðu fyrir hælisleitendur og öruggu húsnæði fyrir framleiðslu á vegabréfum og öðrum opinberum skírteinum.
Björn segir á heimasíðu sinni, að þeir Jóhann hafi m.a. rætt um kröfur Evrópusambandsins og eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli EES-samningsins um, að farþegar sæti öryggisleit við komuna frá Bandaríkjunum. Óánægju gæti hjá farþegum á leið til Íslands yfir því að þurfa að fara í gegnum slíka leit. Segir Björn, að hún byggist ekki á ESB/EES kröfum heldur skipulagi í flugstöðinni og muni stjórnendur hennar vera að velta fyrir sér leiðum til úrbóta.