Langt viðtal er við Björgólf Guðmundsson, formann bankaráðs Landsbankans, í breska blaðinu Observer í dag, þar sem farið er yfir ævi hans og feril og kaup hans á breska knattspyrnuliðinu West Ham. Björgólfur segir m.a. í viðtalinu, að Eggert Magnússon stýri West Ham en þeir ræði mikið saman í síma. „Það er hægt að líta á Eggert eins og Coca-Cola skiltið," segir Björgólfur.
Björgólfur segir í viðtalinu, aðspurður um ástæður þess að hann keypti West Ham, að enska úrvalsdeildin hafi ákveðinn sess í hugum knattspyrnuáhugamanna og það séu því forréttindi að taka þátt í starfinu þar. „Ég er einnig kominn í þannig aðstöðu, að vera svo heppinn að gera gert það sem ég vil - ég fær meira út úr þessu en peninga," segir hann.
Björgólfur segir, að þeir Eggert vinni saman að málum West Ham. Þeir hafi mjög svipaða afstöðu og hugmyndir. Hugmyndin að kaupa West Ham hafi kviknað eftir að þeir Eggert ræddu saman á síðast ári um lífið og tilveruna og Eggert velti því fyrir sér hvað hann ætti að taka sér fyrir hendur eftir að hann hætti sem formaður KSÍ. Björgólfur segir, að þegar West Ham kom upp á borðið hafi honum dottið í hug, að þetta væri starf við Eggerts hæfi.
„Þetta kom í gegnum Landsbankann í Lundúnum og ég var að íhuga þetta viðskiptatækifæri - auðvitað þurfti ég að finna einhvern til að bera ábyrgð á verkefninu. Þá mundi ég eftir samtali okkar Eggerts og hringdi í hann."
Björgólfur segir að þeir hafi ekki búist við þeim vandamálum, sem komu upp hjá West Ham eftir að hann eignaðist félagið. En hann segist trúa því að liðið geti komist í hóp þeirra bestu á Englandi, komist í Meistaradeild Evrópu og unnið úrvalsdeildina. Það gerist ekki á næstunni heldur muni taka tíma.