Mikill mannfjöldi á vel heppnaðri ljósanótt

Mikill mannfjöldi var saman kominn á Ljósanótt í gær
Mikill mannfjöldi var saman kominn á Ljósanótt í gær mbl.is/Víkurfréttir

Lögreglan á Suðurnesjum segir, að þegar á heildina sé litið hafi Ljósanótt gengið vel fyrir sig í gær. Mörg þúsund manns skemmtu sér vel í miðbæ Reykjanesbæjar í gærkvöldi þegar hæst stóð um miðnætti. Nokkur mál komu til kasta lögreglu vegna ölvunar og óspekta í nótt. Nokkuð var um pústra og slagsmál en engin alvarleg mál komu upp. Rúmlega 50 lögreglumenn voru á vakt í gærkvöldi þegar mest lét.

Miklar umferðartafir urðu á Reykjanesbraut vegna mikils umferðarþunga um og eftir miðnætti í lok hátíðarinnar. Umferð til Reykjavíkur var mjög hæg en við Grindavíkurveg fór umferð að ganga greiðar fyrir sig.

Lögregla, barnaverndarnefnd, foreldrar og útideild Reykjanesbæjar starfræktu athvarf í tengslum við hugsanlega ölvun ungmenna og brot á útivistarreglum. Nokkur afskipti voru höfð af ungmennum sem síðan voru færð í athvarfið. Haft var samband við forráðamenn sem var gert að sækja þau.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Níu fíkniefnamál komu upp og sex minniháttar umferðaróhöpp urðu í gærkvöldi og nótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert