Í Mæðrahúsinu í Bluefields í Níkarakva, sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands lét byggja og opnað var fyrir fáeinum vikum, dvelur nú níu ára barnshafandi stúlka. Fjölmiðlar í Níkaragva hafa undanfarna daga sagt frá máli stúlkunnar sem var misnotuð af frænda sínum.
Samkvæmt upplýsingum frá Þróunarsamvinnustofnun er stúlkan frá El Tortuguero, afskekktu þorpi á Atlantshafsströndinni. Málið komst í landsfréttirnar þegar móðir hennar kærði misnotkunina til yfirvalda í Bluefields. Áður hafði hún tilkynnt atburðinn til lögreglunnar í heimabæ sínum í maí en þar var ekkert gert.
Stúlkan er nú gengin fimm mánuði á leið og ferðaðist með móður sinni þriggja daga leið til Bluefields. Yfirvöld þar sendu mæðgurnar á sjúkrahús bæjarins þar sem stúlkan gekkst undir mæðraskoðun. Læknar segja líkama stúlkunnar langt því frá tilbúinn undir meðgöngu og því verði meðgangan erfið og geti verið skaðleg heilsu hennar, jafnvel lífshættuleg. Sjúkrahúsið hefur ekki aðstöðu til að hýsa stúlkuna og því var hún send í mæðrahúsið í bænum. Þar mun stúlkan dvelja fram að fæðingu.
Gerður Gestsdóttir, ráðgjafi félagslegra verkefna Þróunarsamvinnustofnunar í Níkaragva, segir að því miður sé alltof algengt hér að ungar stúlkur verði fórnarlömb ofbeldismanna og verði ófrískar í kjölfarið. Stúlkur, sem verði þungaðar í kjölfar misnotkunar, eiga ekki einu sinni lengur möguleika á því að fara í fóstureyðingu því ný fóstureyðingarlög sem voru samþykkt í október á síðasta ári, banni fóstureyðingar með öllu og taki einnig fyrir eyðingu fósturs af læknisfræðilegum ástæðum, eins og lögin heimiluðu þó áður.