Sundið og heilsuböð fengu hæstu meðaleinkunn eða 8,5 í viðhorfskönnun sem gerð var meðal erlendra ferðamanna sem dvöldu í Reykjavík síðastliðinn vetur. Aðrir heilsuræktarmöguleikar fengu einkunnina 8. Verslanir fengu lökustu einkunnina eða 5,9 og hefur þar hátt verðlag mest að segja.
Í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu segr, að 91% þeirra sem afstöðu í könnuninni tóku töldu reynsluna af borginni frábæra eða góða. Þetta er í samræmi við niðurstöður sem birst hafa síðustu úr sambærilegum könnunum síðustu ár.
Flestir þeirra sem heimsóttu höfuðborgina fóru á veitingahús eða um 76% og 69% fóru í sund. Um þriðjungur erlendra ferðamanna í Reykjavík sækja söfn eða sýningar og 14% fóru á listviðburð í borginni. Aðeins 13% aðspurðra sögðust nýta sér þjónustu strætó.
Í könnuninni voru jafnframt settar fram nokkrar fullyrðingar sem gestirnir lögðu mat á. Í ljós kom að 89% voru sammála þeirri fullyrðingu að Reykjavík sé örugg borg, 81% telja að Reykjavík sé hrein borg, 75% telja að auðvelt sé að ferðast um borgina og 69% voru sammála því að Reykjavík sé skapandi borg.
Í könnuninni var jafnframt spurt hvort fólk myndi mæla með Reykjavík sem áfangastað við aðra. Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 95% myndu mæla með Reykjavík.
Könnunin var gerð fyrir Höfuðborgarstofu af Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar í Leifsstöð frá janúar til maí 2007. Alls svöruðu 1486 ferðamenn könnuninni eða 81% þeirra sem fengu hana í hendur.