Á miðnætti í kvöld rennur út frestur þeirra sem áður tryggðu hjá Samvinnutryggingum til að lýsa kröfum um hlutafjáreign í fjárfestingafélaginu Gift. Þeir sem telja einhvern vafa á því hvort þeir eigi réttindi hjá hinu nýja félagi geta í dag haft samband við skilanefnd sem sér um fjárhagslegt uppgjör Samvinnutrygginga. Kristinn Hallgrímsson formaður nefndarinnar segir marga hafa haft samband við nefndina, en að í langflestum tilvikum séu réttindin skýr.
Tilkynnt var í júní sl. að Samvinnutryggingar yrðu lagðar niður og að dótturfélagið Gift fjárfestingafélag, myndi taka við öllum eignum félagsins.
Rúmlega 50.000 aðilar sem voru í viðskiptum við Samvinnutryggingar verða hluthafar í Gift. Þeir sem voru í vátryggingaviðskiptum við félagið á árunum 1987 – 1988 og þeir sem tryggðu fasteignir sínar gegn bruna á árunum 1992 – 1993 verða sjálfkrafa hluthafar. Lögaðilar þurfa þó að hafa haldið áfram viðskiptum við Vátryggingafélag Íslands síðan til að halda réttindum sínum.
Kristinn segir að tekið verði á móti erindum fólks fram á nótt, en að menn brenni þó engar brýr að baki sér þótt þeir skili ekki inn fyrir tilsettan tíma. Engin lög séu til sem eiga við um eignarhaldsfélagið og því tapi menn ekki réttindum. Segir Kristinn að ef í ljós komi síðar að menn sem eigi réttindi telji sig ekki fá hlut í samræmi við viðskipti sín þá endi réttindin inni í sjálfseignarstofnuninni Samvinnusjóðnum, og þangað geti viðkomandi leitað réttar síns.
Þó áréttar Kristinn að slík vafamál séu í miklum minnihluta, í langflestum tilvikum séu réttindin ljós þar sem nákvæm gögn séu til um öll viðskipti.