Ósáttur við að sitja undir ærumeiðingum ráðherra

Einar Hermannsson skipaverkfræðingur er ósáttur við að þurfa að sitja undir ærumeiðandi orðum samgönguráðherra varðandi þátt hans í Grímseyjarferjumálinu. Einar fundaði með fjárlaganefnd Alþingis í dag og fór fram á það við nefndina að hún kæmist að sjálfstæðri niðurstöðu hvort hann beri þá ábyrgð sem samgönguráðherra hefur lýst yfir opinberlega að hann beri í málinu.

Einar segir að nefndin hafi ekki talið sig vera í stöðu til þess að dæma um ábyrgð hans. Hann kveðst vera ósáttur við það. „Ég sit enn undir þessum ærumeiðingum sem eru órökstuddar og ráðherrann hefur kosið að draga þær ekki tilbaka.“

Hann segir að nefndin hafi spurt fjölmargra spurninga varðandi Grímseyjarferjuna sem hafi snúist um feril málsins, þ.e. allt frá því þegar skipið var skoðað í upphafi. Einar sagði hann hafi talið skipið vera vænlegan kost að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Í ferlinum var öllum þessum skilyrðum kollvarpað af stjórnvöldum,“ sagði hann.

Hann segir orðstír sinn hafa óhjákvæmilega beðið hnekki í málinu.

Þetta er í annað sinn sem fjárlaganefnd fundar um málið. Fulltrúar Ríkiskaupa og samgönguráðuneytisins voru jafnframt boðaðir á fundinn auk Einars.

Í síðustu viku fundaði samgöngunefnd Alþingis um stöðu ferjunnar og þá lét Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður nefndarinnar, hafa eftir sér að málið væri „klúður á klúður ofan“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert