Síbrotamenn misnota nær allir lyfið Rivotril

Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
Nánast allir síbrotamenn, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur afskipti af, misnota lyfið Rivotril. Lyfið, sem er skráð flogaveikilyf en hefur á síðari árum aðallega verið notað við kvíða, veldur mikilli vímu í ofskömmtum og er ávanabindandi.

Í fjölda dóma fyrir bæði líkamsárásir og innbrot á undanförnum árum kemur lyfið við sögu, m.a. í máli fimmtán ára unglings sem fékk í ágústmánuði dóm fyrir alvarlega líkamsárás á leigubílstjóra. Sífellt fleiri afbrotamenn, sem koma við sögu lögreglu, neyta lyfsins. Auðvelt virðist vera að fá því ávísað hjá sérfræðingum en lyfið gengur einnig kaupum og sölum á svörtum markaði. Það er ódýrt miðað við önnur fíknilyf enda tekur Tryggingastofnun ríkisins stóran þátt í greiðslu þess. Samkvæmt upplýsingum lyfjafræðings hjá eitrunarmiðstöð Landspítala hefur fyrirspurnum um misnotkun Rivotrils fjölgað. Læknir hjá SÁÁ segir að síðastliðin ár hafi fjöldi skjólstæðinga, sérstaklega kvenna, sem ánetjast róandi lyfjum á borð við Rivotril, aukist.

"Menn verða fljótt mjög háðir lyfinu og veigra sér ekki við hvort heldur er að hóta líkamsmeiðingum til að komast yfir næsta skammt, fara í innbrot, þjófnaði eða rán," segir Aðalsteinn Aðalsteinsson rannsóknarlögregumaður. "Það fer ekki á milli mála að sífellt fleiri skjólstæðinga minna eru farnir að misnota Rivotril. Það má segja að það sé orðið ófremdarástand hvað þetta lyf varðar."

Á vef Lyfjastofnunar kemur fram að Rivotril eigi að ávísa mjög varlega fyrir sjúklinga sem hafa átt við misnotkun áfengis eða eiturlyfja að stríða. Lyfið geti „leitt til líkamlegrar og andlegrar ávanabindingar. Hættan á ávanabindingu eykst með auknum skömmtum og löngum meðferðartíma."

Í hnotskurn
» Einkenni ofskömmtunar á Rivotril spanna allt frá vímu og svima til erfiðleika við samhæfingu hreyfinga og mikils sinnuleysis.
» Alvarlegar afleiðingar eru fátíðar, segir á vef Lyfjastofnunar, nema annarra lyfja eða áfengis sé neytt samhliða.
» Síbrotamenn neyta Rivotrils í bland við önnur lyf. Þeir segjast finna fyrir minnisleysi og árásarhneigð.

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert