Nýnemar við Menntaskólann á Ísafirði voru hefðinni samkvæmt teknir formlega í nemendahópinn á föstudaginn með tilheyrandi vatnsgusum og sóðaskap. Ekki eru allir sammála um það hversu vel athöfnin fór fram en í tilkynningu frá skólameistara MÍ segir að busnin hafi farið úr böndunum, eins og svo oft áður og verði busavígslan eftirleiðis framkvæmd með öðrum hætti.
„Ég efast um að nokkur nýnemi hafi haft gaman af enda gat ég ekki merkt neinn gleðisvip á andlitum þeirra þegar leið á athöfnina. Meðstjórnendur mínir, kennarar og aðrir starfsmenn skólans eru sammála mér að vígslan hafi verið ómannúðleg. Öll umgjörð busunar og framkvæmd hennar einkenndist af klúru orðbragði, ofbeldi, sóðaskap og gekk í berhögg við þær reglur sem settar hafa verið um busavígslu hér við MÍ,“ segir í tilkynningu frá Jóni Reyni Sigurvinssyni skólameistara MÍ.
Ennfremur segir í tilkynningunni að busavígsla eigi að skilja eftir sig skemmtilegar minningar og ætti að að vera skólanum og nemendum til sóma, en það hafi ekki tekist nú. „Þessu verður breytt. Framvegis verður busavígsla Menntaskólans á Ísafirði framkvæmd með öðrum hætti en verið hefur undanfarin mörg ár. Fyrir tólf árum tókst að breyta þessu í skemmtilega og menningarlega athöfn og stóð það í tvö ár og vakti athygli og almenna ánægju. Með aðstoð nýnema ásamt ábyrgum fulltrúum eldri nemenda verður allri umgjörð þessarar athafnar breytt aftur þannig að hún verði skólanum til sóma og skilji eftir góðar minningar.“
Halldór Smárason, nemandi í þriðja bekk og einn skipuleggjenda busavígslunnar, segist ekki vera sammála skólameistara, þó vissir hlutir hefðu mátt fara betur. „Við áttum fund með skólayfirvöldum í síðustu viku þar sem okkur voru settar reglur. Við reyndum auðvitað að fara eftir þeim en eins og við má búast þá eru alltaf einhverjir sem fara yfir strikið. Þegar allt kemur til alls tel ég að athöfnin hafi farið vel fram enda alveg stórslysalaus eins og undanfarin ár. Ég vil ekki breyta þessari hefð en auðvitað er þetta ákvörðun skólameistara“, segir Halldór.