Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að beina því til eigenda fyrirtækisins að rekstrarformi þess verði breytt úr sameignarfyrirtæki í hlutafélag og að hlutafélagið taki til starfa 1. janúar 2008. Fulltrúar Samfylkingar og VG greiddu atkvæði gegn tillögunni. Málið verður tekið fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur á morgun.
Jafnframt var samþykkt að beina því til eigenda að óskað verði eftir við iðnaðarráðherra að flutt verði frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur til samræmis. Fram kom á fundinum ósk um frekari gögn vegna fyrirhugaðrar umræðu um félagsform Orkuveitunnar á vettvangi sveitarstjórnanna og verða þau útbúin.
Í bókun meirihluta stjórnar OR segir m.a., að það sé tiltölulega lítil breyting að færa rekstrarformið úr sameignarfélagi í hlutafélag en bæði rekstrarformin lúti lögmálum einkarekstrarins. Meginmunur á sameignar- og hlutafélagsforminu varði ábyrgðir eigenda. Í sameignarfyrirtækjum ábyrgist eigendur allar skuldbindingar félagsins en í hlutafélögum ábyrgjast eigendur einungis skuldbindingar félagsins með framlögum sínum, hlutafé, og öðrum eignum félagsins. Ábyrgðir eigenda sameignarfyrirtækja skekki samkeppnistöðu þeirra gagnvart hlutafélögum sem ekki njóta sérstakra ábyrgða eigenda sinna. Þá hafi verið sýnt fram á að ábyrgðirnar stríði gegn samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Ýmsir sveitarstjórnarmenn þ.á.m. borgarfulltrúar hafi opinberlega gagnrýnt ábyrgðir sveitarfélaga á skuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur og greitt atkvæði gegn þeim.
Þá er minnst á, að tekjuskattshlutfallið lækki við breytinguna úr 26% í 18% og ætti það eitt og sér að réttlæta breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins.
Hálfköruð tillaga
Dagur B. Eggertsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, segir að tillagan um hafi verið hálfköruð og ákvörðun um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag hafi verið tekin þótt ekki lægi fyrir úttekt á því hvað lánakjör Orkuveitunnar myndu breytast mikið til hins verra, hvaða áhrif þessi breyting hafði á skattaleg atriði eða lagalega stöðu fyrirtækisins. Þá sé ósvarað fjölda spurninga og álitamála um hvernig megi tryggja að félagið verði áfram í samfélagslegri eigu en ekki selt. Meirihlutinn hafi þó lýst því yfir, að hann myndi vilja vinna að því að girðingar við sölu og einkavæðingu OR yrðu settar í lög og stofnsamþykktir, ef til hlutafélagavæðingar kæmi.
Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG í stjórn Orkuveitunnar, lagði fram frávísunartillögu á fundinum, sem var vísað frá, og einnig tillögu um að afgreiðslu málsins yrði frestað en sú tillaga var felld.
Svandís lagði að því búnu fram bókun þar sem segir m.a. að afar alvarlegt sé að breyting á rekstrarformi Orkuveitu Reykjavíkur skuli borin upp með þeim hætti sem gert sé. Umræða sé takmörkuð og ekki gefinn tími eða rými til að fjalla um alla þætti málsins. Meirihlutinn kjósi að hunsa eðlilegar kröfur um frestun og ítarlegri gögn og vekja vinnubrögðin tortryggni og sé mat Vinstri grænna að hér sé um fyrsta skref í átt til einkavæðingar að ræða.