Tíu líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en helmingur þeirra átti sér stað í miðborginni. Meðal annars fékk karlmaður um tvítugt högg á andlitið og skarst illa þar sem hann stóð í biðröð utan við skemmtistað. Árásarmannsins er enn leitað.
Inni á öðrum skemmtistað sló kona dyravörð. Konan virtist eiga erfitt með að sætta sig við að búið var loka staðnum en til stóð að vísa henni út.
Rúmlega hálffertugur karlmaður lenti í átökum í Lækjargötu. Hann var með áverka á höfði og var fluttur á slysadeild, líkt og kona á þrítugsaldri sem skarst á hendi en ekki er með öllu ljóst hvernig hún varð fyrir þeim skaða. Þá slógust tvær konur við karlmann á fertugsaldri en þær ætluðu að hafa af honum tómar gosdrykkjarumbúðir sem hann hafði safnað.
Maður um tvítugt skarst á höfði þegar hann hugðist gera upp sakir við hálfþrítugan karlmann í Háaleitishverfi. Í Grafarvogi kom til ryskinga ungmenna og var 17 ára piltur aumur eftir þau viðskipti. Stúlku á svipuðum aldri var hrint harkalega í Breiðholti þegar hún ætlaði að kalla til lögreglu í kjölfar þess að símanum hennar var stolið. Jafnaldra hennar í Hafnarfirði marðist á höfði þegar flösku var kastað í hana og í Kópavogi handtók lögregla karlmann á miðjum aldri en sá hafði lagt hendur á konuna sína.