Maður á þrítugsaldri missti framan af fingri í vinnuslysi sem varð á Þeistareykjum í gærdag. Klemmdist hönd mannsins þegar verið var að setja upp undirstöður fyrir borturn.
Jarðboranir hafa annast jarðhitaboranir á svæðinu. Á tólfta tímanum í gær var tilkynnt um að maður hefði slasast þegar var verið að hífa grindur með undirstöðum borturns. Voru starfsmenn Jarðborana að setja upp borturninn þegar slysið varð. Vegur hver grind á milli sjö og átta tonn og lagðist þessi þungi ofan á fingur mannsins en ekki lá fyrir í gær nákvæmlega fyrir hvernig slysið atvikaðist.
Missti maðurinn framan af einum fingri og var hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.