Ný auglýsingaherferð Símans hefur farið fyrir brjóstið á mörgum en í auglýsingunni er Jesús að fara snæða síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum þegar hann uppgötvar að Júdas er hvergi sjáanlegur. Hann nær hinsvegar sambandi við hann með hjálp myndsíma.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir auglýsinguna vera smekklausa, og hann undrast að svo stórt fyrirtæki sem Síminn sé þurfi að leggjast svo lágt.
Auglýsingastofan ENNEMM framleiddi auglýsinguna og að sögn Jóns Gnarrs, hugmyndasmiðs auglýsingarinnar, var aldrei tilgangurinn að hneyksla eða sýna fólki vanvirðingu með því að nota trúarmótív með þessum hætti.
Linda Waage, upplýsingafulltrúi Símans, segir að áður en auglýsingarnar voru gerðar og birtar hafi verið leitað álits guðfræðinga og embættismanna þjóðkirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar á því hvort innihald auglýsinganna gæti flokkast sem guðlast. Allir hafi þeir sagt að svo væri ekki.
Hún segir að það sé ekki ætlunin með auglýsingunni að særa blygðunarkennd nokkurs manns, og hún feli ekki á nokkurn hátt í sér ádeilu á kirkjuna.