Brátt hægt að fá leigða breytta jeppa í fjallaferðir

Fyrsti Land Roverinn afhentur.
Fyrsti Land Roverinn afhentur.

Gengið hefur verið frá samningi milli fyrirtækjanna B&L og bílaleigunnar Ísak ehf., sem er dótturfyrirtæki Ferðaskrifstofunnar Ísafoldar. Samningurinn felur í sér kaup á 8 nýjum Land Rover Defender jeppum sem verður breytt fyrir 38“ dekk og verða þeir frá áramótum leigðir út í skipulagðar ferðir undir eftirliti og leiðsögn starfsmanna Ísafoldar.

Í tilkynningu frá Ísafold segir, að allir þátttakendur fái ítarlegar leiðbeiningar um hvað þurfi að aðgæta í sambandi við akstur breyttra bíla áður en lagt er af stað, en einnig standi í boði stutt námskeið í bíltækni, aksturstækni og ferðamennsku í upphafi ferðar.

Í tilkynningunni segir, að forsvarsmenn Ísafoldar vilji með þessari nýjung fjölga afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustunni en renna um leið frekari stoðum undir heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands, einkum að vetri til.

Þá hefur Ísafold samið við Kolvið um að kolefnisjafna ökutæki Ísafoldar með því að planta trjám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert