Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans

Miklar umræður hafa spunnist meðal bloggara um nýja auglýsingaherferð Símans, en í gær var frumsýnd sjónvarpsauglýsing þar sem Jesús Kristur sést ræða við Júdas í gegnum myndsíma. Í auglýsingunni er vísað með grínaktugum hætti til síðustu kvöldmáltíðarinnar en grínið hefur fallið í misfrjóan jarðveg. Meirihluti bloggara virðist þó taka auglýsingunni vel.

Fjallað var um auglýsinguna á vefvarpi mbl.is í dag og hefur mikið verið bloggað í tengslum við þá frétt. Sumir hafa tekið í sama streng og Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, og sagt að auglýsingin sé smekklaus. Einn bloggari skrifar að umrædd auglýsingin sé Símanum ekki til framdráttar. Menn minnast þess einnig þegar frægur páskaþáttur Spaugstofumanna fór yfir strikið og fyrir brjóstið á mörgum.

Aðrir segjast hinsvegar sjá spaugilegu hliðina á málinu og þykir þeim fólk vera óþarflega viðkvæmt fyrir gríninu. Menn tala um bráðfyndna auglýsingu sem sé auk þess fagmannlega gerð. „Það er nú allt í lagi að hafa smá húmor þó menn séu trúaðir,“ skrifar einn bloggari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka