Stuðningur hefur farið vaxandi við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt nýrri könnun, sem Capacent hefur gert fyrir utanríkisráðuneytið, eru tæplega 41% landsmanna hlynnt framboðinu, tæplega 32% eru andvíg en tæp 29% hafa ekki skoðun. Í könnun sem gerð var árið 2005 voru 28% hlynnt framboðinu og 53% andvíg.
Könnunin var birt á blaðamannafundi, þar sem kynnt var fyrirhuguð háskólafundaröð, sem ber yfirskriftina: Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur. Efna íslensk stjórnvöld til þessarar fundaraðar í samvinnu við alla átta háskóla landsins. Fyrsti fundurinn verður á föstudag í Háskóla Íslands þar sem bæði Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, munu flytja erindi.
Ingibjörg Sólrún sagði á blaðamannafundi í dag, þar sem fundaröðin var kynnt, að framboð Íslands til öryggisráðs SÞ væri hvati að samsamstarfinu við háskólana.
„Við höfum orðið vör við það hér í utanríkisráðuneytinu, að þótt það hafi legið fyrir allt frá árinu 1998 að við ætluðum að sækjast eftir þessu sæti þá hefur mjög lítil umræða farið fram um það hér innanlands. Það er kannski lítil þekking á því af hverju við erum að gera þetta, hvert er erindi okkar og fólk horfir í kostnaðinn, það hefur verið sagt að þetta verði okkur alltof dýrt og spurt hvað er í þessu fyrir okkur. Og margir telja að það sé ekki eftir neinu að slægjast.
Ég segi: það er bæði heilmikill ávinningur af því að við kynnum Ísland og það sem það stendur fyrir á alþjóðavettvangi og við höfum heilmiklar skyldur að rækja á alþjóðavettvangi líka. Ísland hefur enga afsökun fyrir því að axla ekki þessar skyldur þegar við lítum til þess að öll ríki Evrópu hafa setið í öryggisráðinu nema þau allra smæstu, örríkin.
Við lítum á okkur sem þjóð meðal þjóða og þetta er í mínum huga lokahnykkurinn í okkar sjálfstæðisbaráttu, að við rækjum þessar skyldur."
Könnunin var gerð á tímabilinu 31. júlí til 14. ágúst. Úrtakið var 1350 manns á aldrinum 16-75 ára. Svarhlutfall var 61%.