Slys varð í Vestmannaeyjum í dag þegar tveir réttindalausir 14 ára drengir lentu í árekstri á mótorkross hjólum. Atvikið átti sér stað inni í Vestmannaeyjabæ og var annað hjólið óskráð. Annar drengurinn slasaðist á fæti en er þó ekki talinn alvarlega slasaður, að sögn Umferðarstofu.
Umferðarstofa segir, að undanfarið hafi verið töluvert um slys þar sem unglingar og börn séu að aka mótorkross- eða fjórhjólum réttindalaus. Af þeim sökum vilji Umferðarstofa brýna það fyrir foreldrum að allur akstur réttindalausra ökumanna sé bannaður nema á sérstökum afmörkuðum svæðum sem lögreglustjóri hefur veitt heimild til að nota. Slíkar undanþágur séu þó ekki veittar í þeim tilfellum þar sem ökumenn hafa verið sviptir ökuréttindum.