Craddock: Vonbrigði þegar þjóðir hætta þátttöku í verkefnum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og John Craddock á blaðamannafundinum í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og John Craddock á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Sverrir

John Craddock, yfirmaður herafla NATO í Evrópu, segir að það valdi vissulega vonbrigðum þegar breytingar verði á bandalagsher og þjóðir hætti þátttöku í verkefnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, staðfesti í gær að ákveðið hefði verið að kalla heim eina íslenska friðargæsluliðann sem starfað hefur á vegum þjálfunarverkefnis Atlantshafsbandalagsins í Írak.

Craddock er staddur hér á landi og hélt í dag blaðamannafund ásamt Ingibjörgu Sólrúnu. Hann sagði, aðspurður um þessa ákvörðun Íslendinga, að aðildarríkin sjálf tækju slíkar ákvarðanir og byggðu á hagsmunum þjóðarinnar. „Frá mínum sjónarhóli sem yfirmaður herafla NATO þá vil ég að allar þjóðir, sem eiga þátt í því bandalagi héldu sínu striki, héldu áfram stuðningi við það starf sem þar er unnið, því að það er mikilvægt að bandalagið haldi og tali einni röddu. Ég hef hins vegar fullan skilning á því að þjóðir taka ákvarðanir sem byggjast á þeirra eigin hagsmunum,"

Craddock sagði, að Ísland væri mikils metinn og virkur aðili að NATO og bandalagið mæti framlag Íslendinga til verkefna þess mikils. „Ég kom nýlega aftur heim frá Afganistan og ég get sagt ykkur að framlag ykkar er mikilvægt, menn meta það mikils og það hefur ekki farið framhjá neinum," sagði hann.

Ingibjörg Sólrún var á fundinum spurð hvort uppi væru áform um að hætta þátttöku í verkefnum NATO í Afganistan, þar sem NATO á í stríðsrekstri. Hún svaraði, að stofnað hefði verið til þátttöku Íslands í aðgerðum í Afganistan með allt öðrum hætti en í Írak.

„Í Afganistan er það NATO sem tekur að sér ákveðið hlutverk þar fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna og það er auðvitað fjölþjóðlegt lið sem stendur þar á bakvið. (...) Þótt það hafi gengið á ýmsu í Afganistan og þar hafi verið átök og við höfum ekki sérþjálfað lið upp á að bjóða sem getur starfað undir formerkjum hernaðar, þá vitum við samt að alltaf þegar við tökum þátt í slíkum verkefnum þá er ákveðin áhætta fylgjandi. Þetta er ekki hættulaus starfsemi. Það eigum við að vita hér í utanríkisþjónustunni, það á íslensk þjóð að vita og það vita þeir sem fara á staðinn. Við getum ekki bara farið af vettvangi hvenær sem það skerst í odda. En við verðum auðvitað að meta stöðuna jafnt og þétt, engu að síður, og hvort okkar fólk á vettvangi sé til þess bært að taka þátt í þeim aðgerðum sem NATO stendur fyrir. Það er sífellt endurmat sem verður að fara fram."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert