Háskólinn á Akureyri og BioPol ehf, sem er nýtt sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd, skrifuðu í dag undir samning um rannsóknasamstarf á sviði sjávarlíftækni. Meginmarkmið samningsins er að efla rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða.
Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknarverkefni og liggur helsti styrkleiki samstarfsins í samlegð ólíkrar sérfræðiþekkingar og þar með meiri líkum á árangri stærri rannsókna- og þróunarverkefna.
BioPol er ætlað að skoða lífríki Húnaflóa ofan í kjölinn, standa að rannsóknum á vettvangi líftækni og nýsköpunar á vettvangi sjávarlíftækni. Enn fremur mun fyrirtækið standa að markaðssetningu og sölu á afurðum úr sjávarlífverum.