Metið hvort heilaskaði hafi haft áhrif á sakhæfi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að tveir kunnáttumenn skuli dómkvaddir til að meta, hvort maður, sem ítrekað hefur verið dæmdur fyrir hrottalegar líkamsárásir á konur, hafi orðið fyrir framheilaskaða í slysi árið 1999 og hvort sá áverki hafi haft áhrif á sakhæfi hans og jafnframt á það hvort refs­ing geti borið árangur.

Maðurinn, Jón Pétursson, var í október í fyrra dæmdur í 5 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárásir á hendur fyrrverandi sambúðarkonu sinni og húsbrot, auk frelsissviptingar og kynferðis­brots gagnvart fyrrverandi unnustu sinni. Hæstiréttur staðfesti þennan dóm á þessu ári. Þá dæmdi héraðsdómur manninn aftur í 5 ára fangelsi í júní í sumar fyrir nauðgun, stórfellda líkamsárás og frelsis­sviptingu. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Lögmaður Jóns hefur óskað eftir því að fram fari tauga­sál­fræðilegt mat á hugsanlegum framheilaskaða sem Jón hafi orðið fyrir í slysi. Slíkur skaði geti valdið hömluleysi þannig að Jón hafi ekki verið sjálfráður gerða sinna og því ekki sakhæfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert