Ekki hefur enn verið gengið frá ráðningu í starf framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, að sögn Guðjóns Arnar Kristjánssonar, formanns flokksins. Segir Guðjón, að ýmsar stofnanir flokksins, svo sem framkvæmdastjórn, eigi eftir að fjalla um málið. Þá verður miðstjórnarfundur haldinn síðar í september.
Magnús Reynir Guðmundsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri flokksins til bráðabirgða eftir að Margréti Sverrisdóttur var sagt upp störfum í vor. Guðjón Arnar sagði, að gengið yrði frá þessum málum áður en Alþingi hefst að nýju í októberbyrjun.