Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af mönnum sem vitni segir hafa skotið úr haglabyssu út um bíl á ferð. Sást til mannanna er þeir óku í átt til Reykjavíkur eftir Þingvallavegi ofarlega í Mosfellsdal og skaut farþegi í bílnum á gæsahóp án þess að stöðva bifreiðina. Lögregla stöðvaði bílinn og lagði hald á vopnið, einnig fundust tóm skothylki í vegkantinum.
Að sögn lögreglu má hvorki skjóta úr bíl á ferð né af þjóðveginum eða innan þess svæðis sem tilheyrir höfuðborgarsvæðinu.
Mönnunum var sleppt eftir viðræður við lögregluþjóna.