Sprengjum eytt í Hvalfirði

Aðstæður í Hvalfirði voru með hættulegra móti í dag en víða var búið að koma fyrir sprengjum í og við olíubryggjuna á Miðsandi, enda var sprengjuæfing í gangi.

Sprengjueyðingaræfingin Northern Challenge hófst 28. ágúst sl. og stendur hún út þessa viku en það er Landhelgisgæslan sem skipuleggur æfinguna með styrk frá Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sprengjusérfræðingar eru hingað komnir víða að úr heiminum til að taka þátt í æfingunni, en í dag fengu fjölmiðlar að fylgjast með með störfum danskra og norskra hermanna í Hvalfirði.

Undirbúningur fyrir æfinguna hefur staðið yfir í eitt ár og er þetta í sjöunda sinn sem þessi æfing er haldin hér á landi. Fjöldi embættismanna frá NATO, fylgdist með æfingunni í dag.

Georg Lárusson, forstjóri LHG, segir æfingar sem þessar hafa mikla þýðingu fyrir starfsmenn Gæslunnar. Hann segir að með þessu kynnist Gæslan því sem sé að gerast í löndunum í kring, hvernig menn vinna og hvað beri að varast. „Við þurfum að vera viðbúin á þessu sviði eins og á öðrum [...] Það er nauðsynlegt fyrir okkur að eiga þessa þekkingu og eiga mannskap sem hefur þjálfun í að fást við svona mál.“

Nokkur bið var eftir norskum sprengjusérfræðingum í Hvalfjörðinn sem áttu víst í smávægilegum örðugleikum með að rata um íslenska vegakerfið. Þeir komust hinsvegar á leiðarenda heilir á húfi og héldu stutta sýnikennslu hvernig þeir beita sérstöku vélmenni til þess að finna og eyða sprengjum.

Æfingin fer jafnframt fram innan og við nýja öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli.

Sprengjusérfræðingarnir sem taka þátt í æfingunni hafa starfað víða um heim, t.d. í Írak og Afganistan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert