„Við finnum mikið fyrir auknum áhuga á dansi og teljum að dansþættir í sjónvarpi hafi með það að gera," segir Hafdís Árnadóttir, eigandi Kramhússins. Undir þetta taka skólastjórar annarra dansskóla. Sjónvarpsþættir á borð við So You Think You Can Dance, sem sýndir eru á Stöð 2, og Dancing With the Stars, sem mikla lukku hafa vakið erlendis, hafa því hér sem annars staðar verkað sem vítamínsprauta inn í dansheiminn og fólk á öllum aldri flykkist í dansskólana.
Götudansar, t.d. hip-hop, breik og krump, eru sérlega vinsælir nú um stundir en aðrir og sígildari dansar á borð við tangó og salsa höfða líka til mun fleiri en áður. Skólastjórarnir vilja þó meina að áhugi á flestum tegundum dansa hafi aukist.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.