Kaffistofu Samhjálpar verðu lokað frá og með morgundeginum en rífa á húsið við Hverfisgötu, sem kaffistofan hefur haft til umráða undanfarinn áratug. 60-70 manns hafa reitt sig daglega á máltíðir í kaffistofunni, en þar hefur utangarðsfólk og aðrir aðstöðulausir getað fengið veitingar án endurgjalds.
Þórir Haraldsson, dagskrárstjóri Samhjálpar, segir að ekki hafi fundist nýtt húsnæði. Samhjálp gerði kauptilboð í húsnæði á svipuðum slóðum, sem hentaði starfseminni fullkomlega, en í gær var ljóst að ekkert yrði af kaupunum vegna óánægju annarra eigenda hússins.
Skjólstæðingum sem leituðu til kaffistofunnar, fjölgaði mikið milli áranna 2005 og 2006 eða um 22%. Sú þróun hefur haldið áfram í ár. Útlendingar eru stækkandi hópur sem þarfnast þjónustunnar og sömuleiðis fjölgaði konum sem þangað leitaði um 138% á umræddu tímabili.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.