Lögreglan í landinu ók samtals 5.713.449 kílómetra á árinu, sem er aukning frá fyrra ári. Kostnaður vegna tjóns á ökutækjum og búnaði hækkaði umtalsvert og munar þar mest um þrjú stór tjón sem urðu á lögreglubílum sem lentu í ákeyrslu í forgangsakstri.
Þetta kemur m.a. fram í ársskýrslu ríkislögreglustjóraembættisins. Ökutæki lögreglu voru alls 153 talsins í janúar 2006. Að loknu útboði Ríkiskaupa var hafist handa við endurnýjun 27 ökutækja á árinu (16 merktra og 11 ómerktra), ásamt því að fjölgað var um eitt nýtt bifhjól hjá lögreglunni í Reykjavík. Keypt voru 12 ný upptökutæki af gerðinni Eyewitness Digital í ökutækin, auk radartækja af gerðinni Golden Eagle II. Þá var settur tölvubúnaður í eina lögreglubifreið til reynslu.
Í ársskýrslunni segir, að mikið annríki hafi verið í bílamiðstöð ríkislögreglustjóra á síðasta ári og voru bílar m.a. þvegnir þar nálægt 4000 sinnum auk almennra þrifa á ökutækjunum og daglegs þjónustuviðhalds. Lögregluembættin nýttu sér aðstöðu bílamiðstöðvarinnar til leitar og rannsóknar á ökutækjum og bílamiðstöðin aðstoðaði Tollstjórann í Reykjavík og Landhelgisgæsluna í ýmsum verkefnum.