Drög liggja fyrir að samkomulagi milli Vinnumálastofnunar, Arnarfells og fyrirtækjanna Hünnebeck Polska og GT Verktaka, um áframhaldandi starsfsemi síðarnefndu fyrirtækjanna tveggja við Hraunaveitu. Til stóð að stöðva starfsemi fyrirtækjanna í morgun að kröfu Vinnumálastofnunar en eftir eftir hartnær sex tíma fundahöld náðist samkomulag og lögregla var send á brott.
Í samkomulaginu felst, að Arnarfell ber ábyrgð á starfsemi undirverktakanna og fær frest til 20. september til að ganga frá þeim málum sem ófrágengin eru varðandi skráningu starfsmanna.
Ólöf Guðmundsdóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Austurlandi sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að ekki kæmi til viðurlaga eða refsinga að svo stöddu.
„Það hefur verið unnið að því samhent að því að leysa mál en ekki að fljúgast á. Ég tel að það séu allir sáttir með það samkomulag sem gert var hér í dag," sagði Ólöf að lokum.