Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, segist telja ríkisfyrirtækið Íslandspóst ohf. vera komið langt út fyrir hlutverk sitt sem sé að veita almenna og sérhæfða bréfa- pakka- og sendingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Samkvæmt framtíðaráformum fyrirtækisins hyggist það útvíkka starfsemina og hefja sölu á ýmsum vörum, eins og skrifstofuvörum, pappír, geisladiskum, kortum og öðrum svipuðum vörum. Eins vilji ríkisfyrirtækið bjóða fólki upp á að kaupa netaðgang, prenta út gögn og ljósmyndir, skanna og ljósrita svo eitthvað sé nefnt. Allt sé þetta þjónusta sem einkaaðilar hafi verið fullfærir að sjá um hingað til, en í krafti stöðu sinnar og skjóli ríkisins muni Íslandspóstur fara í samkeppni við einkaaðila og í mörgum tilfellum einyrkja á landsbyggðinni sem eigi ekki roð í samkeppni við ríkisrekna póst- og ritfangaverslun.
Heimdallur segist telja tímabært að fyrirtækið Íslandspóstur verði einkavætt líkt og önnur ríkisfyrirtæki sem ekki sé lengur þörf fyrir, þar sem virk samkeppni sé fyrir á markaðinum.