Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að óska eftir því, að sendiherra Rússlands komi til fundar í ráðuneytinu vegna ferða rússneska sprengjuflugvéla innan íslenska flugstjórnarsvæðisins í morgun. Íslensk stjórnvöld fylgdust með ferðum flugvélanna í morgun með íslenska loftvarnakerfinu. Vélarnar voru átta talsins, af gerðinni Tupolev-95, sem á sínum tíma gengu undir nafninu Björninn. Fóru þær næst Íslandi er þær voru um 120 sjómílur frá Höfn í Hornafirði.
Sendiherra Rússlands hefur verið kallaður á fund Grétars Más Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.
„Þegar vélar koma á opinberum vegum inn í okkar lofteftirlitssvæði án þess að tilkynna sig þá biðjum við um skýringar," sagði Grétar Már í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Hver var niðurstaða fundar þíns við sendiherrann síðast þegar þetta gerðist? „Þá fór ég fram á að vélar myndu tilkynna sig og mér var sagt að sú beiðni yrði tekin upp í Moskvu en ég hef ekki fengið svör við því ennþá," sagði Grétar Már.
Hann átti von á að funda með sendiherranum á morgun eða strax eftir helgi.
„Við fylgdumst með þessum vélum allan tímann og eftirlitskerfið virkaði ágætlega og við vorum í góðu sambandi við okkar nágranna í Noregi og á Bretlandi," sagði Grétar Már.
„Þetta voru svokallaðir Birnir sem eru ríflega 50 ára gamlar vélar og það er aðdáunarvert hvað þær virðast duga vel," sagði Grétar Már.