Utanríkisráðuneytið óskar skýringa á flugi rússneskra sprengjuflugvéla

Rússnesk TU-95 flugvél á flugi yfir Noregi.
Rússnesk TU-95 flugvél á flugi yfir Noregi. AP

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að óska eftir því, að sendiherra Rússlands komi til fundar í ráðuneytinu vegna ferða rússneska sprengjuflugvéla innan íslenska flugstjórnarsvæðisins í morgun. Íslensk stjórnvöld fylgdust með ferðum flugvélanna í morgun með íslenska loftvarnakerfinu. Vélarnar voru átta talsins, af gerðinni Tupolev-95, sem á sínum tíma gengu undir nafninu Björninn. Fóru þær næst Íslandi er þær voru um 120 sjómílur frá Höfn í Hornafirði.

Sendiherra Rússlands hefur verið kallaður á fund Grétars Más Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.

„Þegar vélar koma á opinberum vegum inn í okkar lofteftirlitssvæði án þess að tilkynna sig þá biðjum við um skýringar," sagði Grétar Már í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hver var niðurstaða fundar þíns við sendiherrann síðast þegar þetta gerðist? „Þá fór ég fram á að vélar myndu tilkynna sig og mér var sagt að sú beiðni yrði tekin upp í Moskvu en ég hef ekki fengið svör við því ennþá," sagði Grétar Már.

Hann átti von á að funda með sendiherranum á morgun eða strax eftir helgi.

„Við fylgdumst með þessum vélum allan tímann og eftirlitskerfið virkaði ágætlega og við vorum í góðu sambandi við okkar nágranna í Noregi og á Bretlandi," sagði Grétar Már.

„Þetta voru svokallaðir Birnir sem eru ríflega 50 ára gamlar vélar og það er aðdáunarvert hvað þær virðast duga vel," sagði Grétar Már.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert