Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði á ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands á Grand Hotel þar sem fjallað var um netþjónabú, að þrjú fyrirtæki hafi þegar skoðað aðstæður á Íslandi og séu öll að íhuga uppsetningu stórbúa sem þurfa hvert um sig raforku sem nemur 50-100 MW innan næstu 3-5 ára.
Össur sagði, að iðnaðarráðuneytið hefði sinnt þessum málum í gegnum Fjárfestingarstofuna, og sérfræðingar á vegum hennar áætli að raforkuþörfin fyrir starfsemi af þessu tagi gæti á næstu 3-5 árum numið 200-250 MW. Sé litið 5-7 ár fram í tímann geti verið um að ræða 350 MW, sem er svipað og orkuþörfin fyrir 250 þúsund tonna álver. Þetta verði íslensku orkufyrirtækin að hafa ofarlega í huga.
„Hér ber allt að sama brunni: Um er að ræða meiriháttar tækifæri fyrir Íslendinga. Þegar slíkur kostur fyrir hendi væri það slys ef vænleg fyrirtæki á þessu sviði, sem til okkar leita, þyrftu frá að snúa vegna þess að orkan væri öll bundin í framleiðslu á áli," sagði Össur.
Össur sagðist einnig vona, að fyrirtæki þar sem Íslendingar séu í fararbroddi, muni ríða á vaðið og setja upp fyrsta netþjónabúið. Margt bendi til þess að svo geti orðið.