Lögreglan á Hvolsvelli varar fólk við miklum vatnavöxtum í Krossá og Steinholtsá, og varar fólk við ferðalögum á Þórsmerkurleið og Fjallabaksleiðum en þar hefur einnig vaxið í ám. Menn frá björgunarsveitinni Dagrenningu eru nú við Steinholtsá þar sem bíll festist í ánni en búið er að ná bílnum upp. Eldri hjón, erlendir ferðamenn, voru í bílnum, en þau voru komin á þurrt þegar lögreglu og björgunarmenn bar að.
Að sögn lögreglunnar mátti ekki miklu muna að bíllinn, sem er jeppi af Mercedes Benz gerð, ylti í ánni. Ekki er að sjá að hann hafi skemmst mikið en björgunarsveitarmenn ætla að draga hann til Hvolsvallar.
Rútur frá Kynnisferðum hafa í dag farið yfir Steinholtsá og Krossá.