Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn á Seyðisfirði, situr nú við annan mann á fundi með Ólöfu Guðmundsdóttur, fulltrúa Vinnumálastofnunar, Gísla Rafnssyni, staðarstjóra Arnarfells, og fleirum í búðum Arnarfells við Hraunaveitu vegna kröfu vinnumálastofnunar um stöðvun á starfsemi Hunnebek Polska og GT verktaka, sem eru undirverktakar Arnarfells.
Deilt er um skráningu 65 starfsmanna undirverktakanna. Þeir sem sitja á fundinum í búðum Arnarfells hafa lokað að sér og meinað fjölmiðlum að sitja fundinn. Er allt eins búist við því að að fundinum loknum verði tilkynnt að starfsemi Hunnebek og GT hafi verið stöðvuð.
Gísli sagðist í samtali við fréttaritara mbl.is vera hissa á því hvernig málið virtist vera að þróast því að verið væri að setja starfsmenn Hunnebek á launaskrá hjá Arnarfelli og GT-verktakar hafi verið að störfum við Kárahnjúka í fjögur ár og því væru þeir væntanlega með sín mál á hreinu.