AFL segist ekki treysta Vinnumálastofnun

Stjórn AFLs Starfsgreinafélags á Austurlandi hefur sent frá sér ályktun og fordæmir þar þann frest, sem forstjóri Vinnumálastofnunar gaf á vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar, til þess að óskráðir starfsmenn héldu áfram vinnu sinni.

Stjórnin segist ekki sætta sig við slíkar undanþágur eins og gefnar hafi verið síðustu daga til GT verktaka og Hünnebeck Polska og niðurstaðan í málinu í gær sé slík, að stjórn félagsins treystir ekki Vinnumálastofnun til að verja rétt launafólks í landinu.

Félagið segir að frestur, sem gefinn var í gær hafi verið veittur á grundvelli launaseðla sem gefnir séu út af fyrirtækinu Nordic Construction line SIA með kennitöluna 999999-9999 á launamenn sem allir eru með kennitöluna 555555-5555. Þessi starfsmannaleiga sé ekki með skráða starfsmenn samkvæmt vef Vinnumálastofnunar.

„Ef þetta eru dæmigerð vinnubrögð forstjóra Vinnumálastofnunnar, sem sjálfur stóð að frestun aðgerða, er ljóst að verkalýðshreyfingin þarf sjálf að annast mál af þessu tagi í framtíðinni. Stjórnin furðar sig jafnframt á því hvaðan þetta fyrirtæki blandaðist inn í uppgjör mála fyrrgreindra fyrirtækja og Vinnumálastofnunar," segir í ályktuninni.

Þá krefst stjórnin þess, að félagsmálaráðherra upplýsi nú þegar um það hvort að framkvæmdir við Kárahnjúka séu slíkt forgangsverk fyrir núverandi stjórnvöld að umsamsamin og lögbundinn réttur launamanna þar séu fótum troðinn. Félagið áskilji sér allan rétt til að grípa til þeirra aðgerða sem til þurfi til að launafólk á félagssvæðinu njóti þeirra lágmarksréttinda sem gilda í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert