Endurnýjun starfsleyfis Laugafisks felld úr gildi

Umhverfisráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands um að endurnýja starfsleyfi Laugafisks á Akranesi, en fyrirtækið hefur með höndum heitloftsþurrkun sjávarafurða. Ráðuneytið féllst hins vegar ekki á kröfur um að stöðva rekstur fyrirtækisins.

Laugafiskur fékk upphaflega starfsleyfi til fjögurra ára en nokkrum mánuðum áður en gildistími þess starfsleyfis rann út tók heilbrigðisnefnd ákvörðun um endurnýjun þess.

Sautján íbúar á Akranesi kærðu þessa ákvörðun og töldu að heilbrigðisnefndin hefði brotið gildandi lög og reglur með því gefa ekki almenning færi til athugasemda.

Umhverfisráðuneytið tók undir þetta sjónarmið og segir í úrskurði sínum, að starfsemi fyrirtækisins sé líkleg til þess að hafa í för með sér áhrif á loftgæði eða vera lyktarvaldandi fyrir umhverfið. Endurnýjun starfsleyfisins varðar því hagsmuni þeirra sem búi í grenndinni og þess hafi ekki verið gætt af hálfu Heilbrigðisnefndar Vesturlands að tryggja þeim er hagsmuni gátu átt svigrúm til að koma að athugasemdum sínum og sjónarmiðum.

Ráðuneytið féllst hins vegar ekki á kröfu íbúanna um að stöðva atvinnurekstur Laugafisks; taldi lagaskilyrði bresta fyrir því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert