Borgin Hróarskelda í Danmörku hefur sagt upp öllum vinabæjum sínum, Ísafirði þar á meðal. Hróarskelda hefur verið vinabær Ísafjarðar í áratugi og gefið jólatré til staðarins í fjölda ára.
„Danir eru um þessar mundir að horfa meira á verkefni innan Evrópusambandsins og telja sig hafa meira upp úr þeim en vinabæjarsamstarfi,“ segir Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Halldór segir að vissulega hafi verið skemmtilegt að hafa Hróarskeldu, einn þekktasta bæ í Danmörku, sem vinabæ. „Ég á ekki von á því að Ísafjörður leiti sérstaklega eftir nýjum vinabæ. Hins vegar berst Sambandi íslenskra sveitarfélaga reglulega beiðnir frá bæjum í Austur-Evrópu um að taka upp vinabæjartengsl við bæi á Íslandi. Það hefur ekki verið rætt formlega, en mér fyndist áhugavert að skoða vinabæjarsamband við bæ í einhverju Eystrasaltslandanna“, segir Halldór.