Ráðherra kallar eftir eftirlitsátaki með réttindum og kjörum erlendra starfsmanna

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, hefur kallað eftir eftirlitsátaki og hertum aðgerðum Vinnumálastofnunar í ljósi framkominna upplýsinga og rökstudds gruns um að fjöldi fyrirtækja, sem starfi hér á landi, hafi látið hjá líða að tilkynna til Vinnumálastofnunar um ráðningu erlendra starfsmanna og upplýsa um réttindi þeirra og kjör.

Hefur Jóhanna mælst til þess að Vinnumálastofnun hefji þegar vinnu við afmörkuð verkefni sem lúta að eftirlitinu, að skýr skilaboð verði gefin út um að ekki sé annað liðið en að fyrirtæki, innlend sem erlend, virði íslensk lög og að viðurlögum í lögum verði beitt með markvissum og samræmdum hætti eftir því sem ástæða er til.

Félagsmálaráðuneytið segir, að meginmarkmið með eftirlitinu og aðgerðum Vinnumálastofnunar sé að tryggja, að hinir erlendu starfsmenn búi við sambærileg kjör og aðbúnað og íslenskir starfsmenn og að ekki sé brotinn á þeim réttur samkvæmt gildandi lögum, reglum og kjarasamningum hér á landi.

Félagsmálaráðherra hefur jafnframt óskað eftir nánu samstarfi við ASÍ um framkvæmdina og mun funda með fulltrúum ASÍ og Vinnumálastofnunar um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert