Stjórnarandstaðan klofin í afstöðu til heimköllunar friðargæsluliða

Ekki er eining í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um þá ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra að binda enda á framlag Íslensku friðargæslunnar í Írak. Geir H. Haarde forsætisráðherra er ósammála ráðherranum en gefur jafnframt í skyn að ekki sé um stórmál að ræða. Stjórnarandstaðan er ekki samstiga í málinu.

„Mér finnst þetta röng ákvörðun," segir Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. „Þetta er fljótfærnislegt og mér finnst sorglegt að hún skuli með þessari ákvörðun í raun bregðast fólkinu í Írak og líka samstarfsþjóðum okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Þarna er um að ræða verkefni á vegum bandalagsins sem snýr að uppbyggingu þessa samfélags og ýmiss konar þjálfun. Þarna er um borgaralegt verkefni að ræða og mér finnst að hún sé ekki að horfa á hlutina í samhengi þegar hún tekur þessa ákvörðun.

Ég leyfi mér að segja að verið sé að rugla saman tveimur málum sem eru í raun óskyld. Annars vegar það að gerð var innrás í Írak sem fólk hefur auðvitað rétt á að hafa mismunandi skoðanir á, hvort það var rétt eða rangt hjá okkur að tengjast þeim atburði. Það er allt annað en í dag þegar málið snýst um að byggja upp þetta samfélag og vinna að því að þarna geti þróast lýðræðissamfélag og það gerist ekki af sjálfu sér.

NATO hefur tekið að sér verkefni sem ég tel mjög mikilvægt. Með því að hlaupa frá því núna erum við að bregðast og mér finnst ekki sómi að því fyrir íslensku þjóðina þegar ástandið er svona hörmulegt í Írak," segir Valgerður Sverrisdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, er á öðru máli.

Mér finnst þetta að sjálfsögðu jákvætt, svo langt sem það nær," segir hann. „Þetta er skref í rétta átt. Ég fagna þessu náttúrulega sérstaklega af því að ég hef frá byrjun gagnrýnt að við værum að þvælast inn í hernaðarlegt verkefni. Það gerði ég strax þegar okkar fólk var sent til Balkanskaga á sínum tíma og fór að stunda þar vopnaburð."

„Hvað með Afganistan?"

Ég hefði því viljað sjá að liðið yrði kallað heim frá Afganistan og þessi mál tekin til endurskoðunar í heild sinni. Og þó fyrr hefði verið. Ef litið er til baka er með ólíkindum hvernig þetta var látið fara af stað án nokkurrar lagastoðar og án stefnumótunar sem hefði þurft að liggja fyrir. Ég held að við ættum að prísa okkur sæl fyrir að það hafi þó ekki orðið alvarleg áföll og er þó ekki hægt að horfa fram hjá þeim dapurlegu atburðum sem urðu í Kjúklingastræti sínum tíma," segir Steingrímur J. Sigfússon.

Ekki náðist í Guðjón Arnar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins.

Í hnotskurn
» Aðstoðin sem Íslendingar eiga aðild að í Írak með starfinu fyrir NATO miðar að því að hjálpa íröskum stjórnvöldum að tryggja öryggi í landinu með því að þjálfa liðsafla íraska hersins. Einnig er aðstoðin fólgin í stuðningi við að þróa öryggisstofnanir Íraks og samstarf um að útvega Írökum ýmsan búnað.
» Stjórnin sem tók við eftir lýðræðislegar kosningar í Írak 2004 undir eftirliti SÞ og leysti af hólmi bráðabirgðastjórn hefur tvisvar ítrekað óskina um að aðstoð fjölþjóðlega liðsins verði veitt áfram. Kemur þetta m.a. fram í bréfi forsætisráðherrans núverandi, Nouri al-Malikis, til öryggisráðs SÞ í nóvember sl.
» Öryggisráðið samþykkti í sama mánuði einum rómi ályktun númer 1723 þar sem framlengt var um eitt ár umboð erlendu herjanna í Írak til að hjálpa Írökum við koma á friði og stöðugleika í landinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert