Neytendasamtökin hafa sent erindi til Neytendastofu þar sem óskað er eftir að Neytendastofa taki til athugunar auglýsingar Símans um háskerpusjónvarp og úrskurði um lögmæti hennar.
Neytendasamtökin vísa til þess, að nýlega hafi Síminn auglýst í dagblöðum háskerpusjónvarp. Í fyrirsögn auglýsingarinnar stóð: „Ekkert loftnet, háskerpusjónvarp og bíó heima í stofu". Þá segi þar einnig, að sjónvarp Símans kynni háskerpusjónvarp og er fólki boðið að koma í næstu verslun og sjá muninn. Tíundað se að í boði séu allar íslensku sjónvarpsstöðvarnar auk 60 erlendra stöðva.
Þetta orðalag telja Neytendasamtökin vísa til þess að Síminn bjóði í raun upp á sjónvarpsútsendingar í háskerpu. Jafnframt sé vandséð hvers vegna Síminn ætti að bjóða neytendum að koma að skoða muninn nema þeir geti svo í kjölfarið tekið ákvörðun um hvort þeir vilji kaupa aðgang að sjónvarpsstöðvum sem senda út í háskerpu og þar með notið gæðanna heima hjá sér. Þegar málið sé skoðað nánar komi hins vegar í ljós að engin íslensk sjónvarpsstöð sendi efni sitt út í háskerpu. Enn fremur sendi engin hinna 60 erlendu sjónvarpsstöðva, sem Síminn vísi til í auglýsingum sínum, efni sitt út í háskerpu.