Ágúst Einarsson, rektors háskólans á Bifröst, segir að hérlendis vanti þá góðu hefð sem sé víða erlendis að fyrirtæki og einstaklingar styrki skóla með myndarlegum hætti. „Það mætti breyta skattalögum til að örva slíkt en fyrst og fremst þarf að verða hugarfarsbreyting hjá atvinnulífinu um hversu mikilvægt það er að skólakerfið sé í fremstu röð og það sé skylda þeirra, ávinningur og heiður að efla það með fjárframlögum,“ sagði Ágúst við útskrift skólans í dag.
Ágúst segir háskólann á Bifröst njóta velvildar margra fyrirtækja og skólayfirvöld séu þakklát fyrir það „en við viljum að allt atvinnulífið gerir sér grein fyrir hversu mikilvægt það er að styðja við skólastarf,“ bætir hann við.
Hann sagði að allir eigi að koma að skólastarfi með þátttöku og fjármögnun. Það sé ekki aðeins verkefni opinberra aðila og nemenda sjálfra heldur eiga einstaklingar og fyrirtæki að leggja af mörkum til að efla skólastarf. Fyrirtæki og einstaklingar hafi stóraukið framlög sín til menningarmála á undanförnum árum og það sé vel en þeir eigi að koma sterkar inn til stuðnings skólum því þar sé uppspretta fólksins sem auki hag þeirra á komandi árum.