Að sögn Sigfríðar Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, er þjóðsöngurinn nú þegar til í alla vega sex mismunandi útsetningum. Þeirra á meðal eru fjögurra radda kórútsetning með og án undirleiks, hljómsveitarútgáfa, lúðrasveitarútgáfa, kvennakórs- og karlakórsútgáfa.
„Þetta er allt gert á mismunandi tímum í mismunandi rithönd. Við munum sjá um það fyrir forsætisráðuneytið að semja við þá sem hafa útsett, ef það eru aðrir en höfundur, og tölvusetja þetta þannig að þetta sé uppsett með samræmdum hætti. Síðan verður tryggt opið og ókeypis aðgengi að þessum skjölum fyrir hvern sem er.“
Aðspurð segir Sigfríður inni í myndinni að útbúa einsöngsútgáfu af þjóðsöngnum með píanóundirleik. Segir hún að gerð verði rannsókn á því hvort Sveinbjörn Sveinbjörnsson, höfundur lagsins, hafi skilið eftir sig meiri píanópart heldur en nú er fyrir hendi. „Ef ekki, þá þurfum við að leita heimildar hjá afkomendum eða rétthafa, sem er forsætisráðuneytið, fyrir því að hægt sé að syngja þjóðsönginn fallega í einsöng.“