Nýr miðbær gæti losað stíflurnar

Módel Sturlu Snorrasonar af nýjum miðbæ.
Módel Sturlu Snorrasonar af nýjum miðbæ. mbl.is/Rax
Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net
Uppbygging nýrrar miðborgar Reykjavíkur við Geirsnef myndi leysa úr umferðarvanda, gera frekari jarðgangagerð á höfuðborgarsvæðinu óþarfa, vernda gömlu miðborgina og jafna aðgengi borgaranna að þjónustu.

Þessu heldur Sturla Snorrason, módelsmiður hjá Arkís ehf. arkitektum og ráðgjöf, fram en hann hefur gert módel af slíkri miðborg. Samkvæmt hugmyndum Sturlu á miðborgin að vera staðsett við þungamiðju umferðarinnar, milli Súðarvogs og Ártúnshöfða.

„Það þarf að leysa umferðarvandann í borginni. Tvær leiðir eru til þess. Annars vegar er hægt að byggja risavaxin umferðarmannvirki. Hins vegar er hægt að búa til nýja þungamiðju fyrir borgina nær hverfum og íbúum hennar. Þá myndi ýmiss konar starfsemi á sviði stjórnsýslu, viðskipta og menningar færast þangað."

Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og prófesssor við verkfræðideild Háskóla Íslands, hrósar hugmyndinni. „Það er ofboðslega mikilvægt og sterkt prinsipp að vera með miðlæga þjónustu á miðju svæði. Það þarf að hugsa um höfuðborgarsvæðið sem eitt svæði. Geirsnefið er mjög nálægt miðþyngdarpunkti þess alls."

Sturla vill líka vernda gömlu miðborgina. „Það væri hægt að koma gömlu borginni í það horf sem hún var í fyrir tuttugu árum. Ég hygg að hún myndi áfram standa undir sér sem verslunarsvæði því að það búa tugir þúsunda vestan við hana og annað eins í nánasta umhverfi miðborgarinnar."

Nánar er fjallað um þetta í Blaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert