Réttað í Auðkúlurétt

Það var góð stemming í Auðkúlurétt í dag
Það var góð stemming í Auðkúlurétt í dag mbl.is/Jón Sigurðsson

Réttað var í Auðkúlurétt fjárflestu fjárréttum landsins í dag í blíðskaparveðri. Það var mál manna að sjaldan eða aldrei hafi jafnmargir tvífætlingar mætt til réttarstarfa. Ábyrgir menn segja að um 12.000 kindur hafi komið til réttar og er það svipað og í fyrra.

Menn voru á því að lömbin væru misjöfn að stærð og holdafari en líklega héngu dilkar í meðaltalinu. Þarna voru mættir núverandi og fyrrverandi þingmenn og varð einum á orði að þetta væru góðar samkomur og ánægjulegt að fólk kæmi svona saman til að ræða málin frá öllum hliðum óháð því hvort evran eða krónan réðu ríkjum.

Smalamennska á afréttinum gekk vel og allir komust heilir til byggða þrátt fyrir töluverðan mótvind í upphafi gangna, samkvæmt frétt frá fréttaritara Morgunblaðsins Jóni Sigurðssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert