Nemendur Menntaskólans í Reykjavík telja sig hafa verið beitta óhóflegu harðræði af dyravörðum á skemmtistaðnum Broadway þegar skólaball var haldið þar síðastliðið fimmtudagskvöld.
Björn Brynjúlfur Björnsson inspector scholae segir dyraverði hafa beitt gesti ofbeldi að ósekju og sumir beri greinilega áverka eftir það. „Margir eru að íhuga að leita réttar síns," segir Björn Brynjúlfur. „Það voru þarna til dæmis stelpur sem voru að mæta á skólaball í fyrsta skipti og stóðu fremstar í röðinni. Þær voru ekki með miðana sína tilbúna og voru bókstaflega rifnar í burtu af dyravörðum."
Arnar Laufdal Ólafsson, framkvæmdastjóri Broadway, segir að málið verði kannað og brugðist við því innanhúss ef þörf krefur.