Sálumessa til minningar um Luciano Pavarotti var sungin í Dómkirkjunni í Landakoti síðdegis í dag. Ítalskir og íslenskir tónlistarmenn fluttu tónlist úr ítölskum óperum. Þeirra á meðal voru Diddú, Pamela De Sensi, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Leone Tinganelli.
Það var Italia Azzurra, félag Ítala á Íslandi, sem stendur á bak við tónleikana. Þeir sem vilja votta Luciano Pavarotti virðingu sína geta ritað nafn sitt í sérstaka minningabók, sem mun liggja frammi í Landakotskirkju og á aðalræðisskrifstofu Ítalíu að Laugavegi 71.