Aðeins landnámsminjar við Þjótanda í hættu verði virkjað

Fornleifafræðingarnir Brynhildur Baldursdóttir og Inga Hlín Valdimarsdóttir grafa eftir fornminjum …
Fornleifafræðingarnir Brynhildur Baldursdóttir og Inga Hlín Valdimarsdóttir grafa eftir fornminjum í landi Þjótanda en þar hefur fundist forn skáli. Til hægri er Ármann Guðmundsson, nemi í fornleifafræði. mbl.is/Sigurður

Fornleifavernd ríkisins segir, að eins og málin standi nú séu minjar við Þjótanda einu minjarnar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar sem séu í hættu vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda í neðri hluta Þjórsár.

Fornleifavernd ríkisins hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins og Morgunblaðsins um fornleifar, sem lendi undir lóni vegna fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Segir stofnunin, að svo virðist sem fjöldi þeirra fornu minja, sem séu í hættu og rannsaka þurfi að fullu á lónssvæðunum, hafi skolast til í fréttum beggja fjölmiðlanna.

Í umfjöllun fjölmiðlanna hafi verið nefndir fjórir staðir sem sagðir séu lenda undir vatni.

„Talað var um skálarúst á eystri bakka Þjórsár á móts við Urriðafoss. Rústin er í landi Kálfholts. Fyrirhugað var að nota svæðið sem rústin er á sem efnisgeymslu í tengslum við byggingu Urriðafossvirkjunar. Horfið hefur verið frá þessu og er rústin því ekki í hættu.

Annar skáli var nefndur austan undir Skarðsfjalli. Sú tóft er langt utan framkvæmdasvæðis Hvammsvirkjunar og ekki í neinni hættu vegna framkvæmda við hana.

Þriðja skálarústin sem nefnd var í fréttinni er gegnt Haga. Rústin er á svokölluðu Bæjarnesi í landi Skarðs. Lón Hvammsvirkjunar og stíflumannvirki sem þarna á að reisa munu liggja neðan við skálarústina en stefnt er að því að hún muni ekki raskast. Ef ekki verður komist hjá raski á skálarústinni þarf að rannsaka hana með fornleifauppgreftri.

Í landi Þjótanda eru nokkrar sýnilegar fornleifar sem fara munu undir lón Urriðafossvirkjunar. Fornleifavernd ríkisins fór fram á rannsókn á fornleifunum sem m.a. miðaði að því að kanna hvort undir sýnilegu minjunum kynnu að leynast eldri minjar. Rannsóknin fór fram í sumar undir stjórn dr. Bjarna F. Einarssonar. Í ljós komu áður óþekktar minjar sem rannsakaðar verða síðar að fullu með fornleifauppgreftri. Eins og málin standa í dag eru minjarnar við Þjótanda einu minjarnar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar sem eru í hættu vegna virkjanaframkvæmdanna," segir í tilkynningu Fornleifaverndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert