Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hyggst skipa nefnd til að endurskoða lagaumhverfi erlendra fjárfestinga hér á landi og semja frumvarp sem leysi af hólmi gildandi lög. Gert er ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Seðlabankans, ráðuneyta utanríkis-, iðnaðar- og sjávarútvegs, Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
Gert er ráð fyrir að í starfi starfshópsins verði miðað við að ásýnd laga um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi verði jákvæð, höfð verði til hliðsjónar þróun innlends hlutabréfamarkaðar og alþjóðlegar og fjölþjóðlegar skuldbindingar og tekið verði á þeim álitaefnum og skuldbindingum, sem gagnkvæmir fjárfestingarsamningar kveða á um og snerta rekstur fjárfestinga.
Þá verði miðað við að takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila verði einfaldaðar og þess jafnframt gætt að unnt sé að framfylgja virku eftirliti með fjárfestingum þar sem takmörkunum verði viðhaldið.