Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segir að ákveðið hafi verið á fundi hennar með forustumönnum Alþýðusambands Íslands í dag, að ráðast í skipulagt átak eða herferð gegn fyrirtækjum, sem starfa hér á landi en hafa ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um ráðningu erlendra starfsmanna og upplýst um réttindi þeirra og kjör. Segir Jóhanna að áætlað sé að um 1000 erlendir starfsmenn séu óskráðir hér á landi og um sé að ræða 2-300 fyrirtæki hið minnsta.
Jóhanna sagði við mbl.is, að með þessu væri verið að verja íslenskt atvinnulíf og tryggja að íslenskt og erlent vinnuafl fái greitt í samræmi við innlenda kjarasamninga. Nú stefni í óefni og ekki sé hægt að líða það, að fyrirtæki geti stundað undirboð á grundvelli þess, að notað sé erlent vinnuafl sem ekki njóti réttinda í samræmi við íslensk lög. Félagsmálaráðherra sagði, að Vinnumálastofnun verði efld í þessu skyni. Nú starfa 2 menn við þetta eftirlit hjá á aðalskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík en þeim verður fjölgað í að minnsta kosti fimm. Einnig sé hugsanlegt að fjölgað verði eftirlitsmönnum úti á landi. Þá sé rætt um að efla trúnaðarmannakerfi Alþýðusambandsins og einnig komi til þátttaka ýmissa stjórnsýslustofnana, sem málið heyri undir, svo sem lögreglu, tollgæslu, skattayfirvöld, þjóðskrá og fleira. Ekki sé ljóst hver heildar kostnaðurinn verður við þessa herferð en Jóhanna sagði, að hann sé nauðsynlegur og muni skila sér margfalt til baka.
Jóhanna sagði, að gert sé ráð fyrir að undirbúningur taki ekki langan tíma og átakið muni ná til fyrirtækja á landinu öllu. Aðspurð sagði hún, að talið sé að þessir óskráðu starfsmenn séu einkum hjá byggingarfyrirtækjum sem starfa á höfuðborgarsvæðinu. Jóhanna sagði, að beitt yrði hörðustu úrræðum gegn fyrirtækjum, sem uppvís yrðu að lögbrotum, en lagaheimildir eru fyrir því að loka fyrirtækjunum eða beita sektum.
Vinnumálastofnun sætti gagnrýni af hálfu verkalýðshreyfingarinnar fyrir að beita ekki slíkum úrræðum gegn tveimur undirverktökum Arnarfells á Kárahnjúkasvæðinu nýlega. Jóhanna sagði að farið hefði verið yfir það mál í dag. Þar hefði niðurstaðan orðið sú að Arnarfell gekkst í ábyrgð fyrir að starfsmenn fyrirtækjanna fengju greitt samkvæmt íslenskum samningum bæði aftur í tímann og framvegis. Markmiðið væri ekki að loka fyrirtækjum heldur tryggja að þau störfuðu í samræmi við lög.